1.1.2008 | 05:16
Nýtt ár- Hugleiðing.
Við áramót verður manni það stundum á að hugsa. Hverju hefur maður nú áorkað á liðnu ári? Hvað ber hið nýja í skauti sér? Að hverju ber að stefna? Það er auðvelt að verða háfleygur í svona pælingum, en ég nenni því varla. Nú, Ég byrjaði í nýrri vinnu snemma á árinu, hjá fyrirtæki sem mér líkar vel að vinna hjá og finnst ég hafa metnað til að gera mitt besta fyrir þó það hafi kannski gengið upp og ofan. Ég allavega reyni.
Ég kláraði að setja upp nýjar vindskeiðar á húsið mitt, nokkuð sem byrjað var á árið 2006, en vegna fótbrots og fleira var ekki hægt að klára það. Þetta var reyndar búið að standa til í nokkur ár, þær gömlu höfðu þann leiða sið að leggja á flótta þegar snjór lagðist of þungt á þær í hláku, helst þegar nýbúið var að hengja upp jólaseríur. Einnig kláraði ég að mála vindskeiðarnar, gluggana og undir þakskeggið svo að núna í fyrsta sinn í mörg ár eru bara tveir litir á húsinu, hvítur og brúnn. Svo gerði ég óvenju mikið í garðinum í sumar, þrátt fyrir mikla vinnu og nokkrar góðar útilegur.
Ég verð þó að vera stoltastur af því afreki mínu á liðnu ári að hafa byrjað að syngja aftur með Karlakór Selfoss eftir 20 ára kórleysi. Ég hef alltaf talið mér trú um að ég hafi ekki tíma fyrir svona lagað, það átti kannski við rök að styðjast þegar ég var að vinna úti á landi og varði 2/3 hluta af tíma mínum fjarri heimabyggð. En þegar maður kemur alltaf heim á kvöldin hefur maður alltaf tíma fyrir svona lagað, og það að gera eitthvað utan vinnu og heimilis veitir manni vissa lífsfyllingu.
Önnur stórvirki man ég nú ekki eftir að hafa gert á liðnu ári nema reynt að halda dampi í lífsins ólgusjó, og ætli það verði ekki stærsta verkefni nýs árs. Að komast skammlaust frá hlutunum og gera sitt besta.
Ég hef oft talað um umferðarmál á þessu bloggi og ég verð að segja að ég get hugsað til síðasta árs með nokkurri gleði þar sem okkur tókst að fækka verulega banaslysum í umferðinni. 15 manns látnir er þó 15 of mikið. Nú verður skiltið í Svínahrauninu núllstillt og það er von mín að þessi fallega setning ,,Enginn látinn á árinu" fái að standa þar sem allra lengst. Ökum því varlega, Þessi þjóð hefur ekki efni á þeim fórnum sem umferðinni eru færðar ár hvert, bæði í mannslífum og einnig í heilsu fólks, þeirra sem lifa slysin af en eru kannski örkumla fyrir lífstíð.
GLEÐILEGT NÝTT ÁR.
Um bloggið
Meterinn
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þú mátt ekki gleyma ÖLLUM stundunum sem fóru í litla KIA, og að flytja litlu systu úr borginni var nú óneytanlega eitt af afrekum ársins
Hallfríður Jóna Jónsdóttir, 11.1.2008 kl. 18:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.